Stríð og kliður
Nonfiksjón, 2021
Stríð og kliður er leiftrandi hugmyndarík og ögrandi bók sem talar til lesenda á öllum aldri. Höfundur sækir jöfnum höndum í eigið líf og skrif vísindamanna og skálda í aldanna rás og útkoman er frumleg og hrífandi glíma við margar stærstu spurningar samtímans.
Þurfum við að endurhugsa samfélög okkar frá grunni? Eru það hinir gæfustu sem lifa af? Er heimurinn virkilega að farast? Búum við í tækniræði? Hvað verður um óhemjurnar?
Lesendur um Stríð og klið
Sverrir Norland skrifar af ástríðu og einlægni um heiminn og framtíð hans. Hann heldur lesanda við efnið með frjóum texta og hugleiðingum sem eiga erindi.
Ólafur Jóhann Ólafsson
Það er langt síðan ég hef lesið bók í striklotu og af áfergju, nema þá handrit að bók eftir sjálfan mig (ekki vantar sjálfhverfuna!). Nú las ég Stríð og klið eftir Sverri Norland, í grennd við mosa og tré í miðjum fjallahring. Frábær bók og tímabær, skemmtileg, gagnrýnin og heiðarleg. Sverrir er Thoreau okkar tíma. Walden-tjörn hans er alls staðar og hvergi, innan í okkur og í skýjunum, umvafin auðmagni og snjalltækjum. Tímatalið miðast ekki við kristburð heldur magn koltvísýrings í andrúmsloftinu, ppm. Þetta er mannöldin í hnotskurn, óbyggðir og víðerni ekki lengur til, allt manngert, náttúra og mannlíf eru eitt. Höfundur er víðlesinn og fer víða, samt tekur hann sér stöðu með eigin rödd og reynslu að vopni. Ný bókmenntagrein í mótun.
Gísli Pálsson,
rithöfundur og prófessor
Ærandi góð bók.
Brynhildur Guðjónsdóttir,
leikhússtjóri Borgarleikhússins
Í þessari bók eru heillandi heimspekilegar vangaveltur um nútímann sem einatt byggir á því sem á undan kom. Tímabær og mikilvæg bók.
Vigdís Finnbogadóttir
Á síðum þessarar bókar gefst okkur tækifæri til þess að hugsa um hið óhugsandi. Andspænis stærstu áskorun allra tíma, loftslagshamförunum, teflir Sverrir Norland fram ímyndunaraflinu, og lesandinn nýtur þess að af því á höfundurinn sjálfur nóg.
Sjón
„[Stríð og kliður] lýsir svo vel angist og tilvistarkreppu okkar tíma, en afhjúpar um leið eðli og vanda mannsins sem skepnu (spendýrs) frá örófi. Niðurstaðan er verk sem svo sannarlega vekur til umhugsunar; er í senn aðgengilegt og skarpt.
Fríða Björk Ingvarsdóttir,
rektor Listaháskólans
Þessi er dásemdarlestur. Takk, Sverrir Norland, fyrir kjarngott fóður fyrir huga og sál.
Vilborg Davíðsdóttir,
rithöfundur
Bók sem vekur og nærir.
Sirrý Arnardóttir,
fjölmiðlakona og rithöfundur
Lesið þessa bók! Frábær hugvekja um loftlagsmálin, tæknina, síbyljuna, sektarkenndina, áreitið, ímyndunaraflið, sköpunargáfuna, lestur og margt fleira. Sverrir Norland er frjór og skemmtilegur hugsuður sem setur þetta í skemmtilegt og áhugavert samhengi. Það er klikkun að hugsa um loftlagsmálin og klikkun að hugsa ekki um loftlagsmálin eins og höfundur segir. Þetta er risastór þversögn sem við erum öll föst í. Ég botna lítið í samtímanum og er farinn að hafa verulegar áhyggjur af framtíðinni, en þessi bók fékk mig til hugsa og staðsetja mig betur í þessari trylltu og ógnvekjandi tæknitilveru. Það er til lausn og hún er falleg og skemmtileg!
Freyr Eyjólfsson,
tónlistarmaður og verkefnastjóri hringrásarhagkerfisins hjá Sorpu
Naut þess mjög að lesa Stríð og klið. Vel skrifuð, full af innsæi, hugmyndum og óvæntum tengingum.
Guðrún Nordal,
prófessor við Háskóla Íslands